Um 190 keppendur á Arctic open golfmótinu

Arctic open alþjóðlega miðnæturgolfmótið hefst á Jaðarsvelli á Akureyri í dag og verða fyrstu kylfingarnir ræstir út núna kl. 15.00. Um 190 manns hafa skráð sig til keppni í ár og komast færri að en vilja.  

Á mótinu er leikið eftir Stableford - punktakerfi með og án forgjafar. Auk einstaklingskeppninnar er spiluð liðakeppni þar sem dregið er í lið af handahófi og eru fjórir saman í liði. Völlurinn kom vel undan vetri og er orðinn nokkuð góður en eins og kunnugt er standa yfir miklar framkvæmdir að Jaðri.

Um er að ræða alþjóðlegt golfmót sem fyrst var haldið árið 1986 og hefur verið árlegt allar götur síðan. Það sem aðgreinir þetta mót frá öðrum golfmótum er að fyrstu ráshópar fara ekki af stað fyrr en seinni part dags og er spilað fram á rauða nótt. Þykir keppendum það mjög  sérstök upplifun að spila golf í fallegu blóðrauðu sólarlagi um miðnæturbil. Mótið hefur verið vinsælt hjá Íslendingum jafnt sem útlendingum sem hafa verið duglegir við leggja leið sína hingað lands til að taka þátt í mótinu.

Á Arctic open mótinu í fyrra var í fyrsta skipti efnt til fjáröflunarleiks á 18. holu vallarins og var tilgangurinn að safna fé til styrktar íþróttastarfi fatlaðra.  Fyrirtæki á Akureyri og þátttakendur í mótinu lögðu samtals fram á aðra milljón króna sem afhent var Klökunum, útivistarhópi sem vinnur að aukinni íþróttaiðkun fatlaðra. Samskonar leikur verður á mótinu í ár og mun það fé sem safnast renna óskipt til Íþróttafélagsins Eikar á Akureyri en tilgangur þess er að efla íþróttaiðkun og útivist þroskaheftra.

Nýjast