Tilkynnt um þrjár líkamsárásir á Akureyri í nótt

Lögreglan á Akureyri fékk tilkynningu um líkamsárás á skemmtistað í miðbæ Akureyrar í nótt en þar lenti tveimur aðilum saman með þeim afleiðingum að annar þeirra gaf hinum olnbogaskot í andlitið. Tilkynnt var um tvær aðrar líkamsárásir við sama skemmtistað en í annarri líkamsárásinni stöðvuðu lögreglumenn mann sem var að lemja annan í andlitið. Árásaraðilinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu. Þá barst lögreglu tilkynning um að aðilar í íbúð í fjölbýlishúsi á Akureyri hefðu bankað upp á hjá nágranna sínum og farið að tala við gesti í samkvæmi þar. Þá hafi komið til einhverra orðaskipta og aðili í samkvæminu hafi dregið upp hníf. Lögreglan hafði upp á aðilanum sem dró upp hnífinn og framvísaði sá veiðihníf. Aðilinn var fluttur á lögreglustöðina á Akureyri.

Þá var tilkynnt um nokkur skemmdarverk víðs vegar um bæinn en þar á meðal var tilkynnt um rúðubrot í heimahúsi á brekkunni en þar höfðu aðilar kastað steini í rúðu og brotið hana. Einnig hafði lögreglan afskipti af þremur aðilum sem höfðu skemmt umferðarmerki í miðbæ Akureyrar. Einn var tekinn fyrir ölvunarakstur á Akureyri í nótt og nokkrir kærðir vegna annarra umferðarlagabrota.

Þá fékk lögreglan þó nokkrar tilkynningar í gærkvöld þar sem fólk kvartaði undan miklum hávaða, reyk og óþef í og við hús þeirra vegna svokallaðrar "burn-out" keppni sem fór fram á Akureyrarvelli í tengslum við Bíladaga.

Nýjast