Þórs/KA stúlkur úr leik í VISA- bikarnum eftir tap í kvöld

Þórs/KA stúlkur eru úr leik í VISA- bikarkeppni kvenna í knattspyrnu eftir tap gegn Breiðabliksstúlkum á Akureyrarvelli í kvöld í 8- liða úrslitum. Eitt mark var skorað í leiknum og það gerðu Blikastúlkur eftir aðeins fimm mínútna leik.

Breiðabliksstúlkur voru mun sterkari í upphafi leiks en heimastúlkur voru í miklum vandræðum og gekk illa að halda boltanum innan liðsins. Gestirnir komust yfir strax á 5. mínútu leiksins með glæsilegu skoti í slánna og inn. Blikastúlkur héldu áfram að sækja en Þórs/KA stúlkur áttu lítil sem enginn færi í fyrri hálfleiknum. Staðan í hálfleik 1-0 Blikum í vil.

Seinni hálfleikur leiksins var með rólegra móti og áttu bæði lið fá færi framan af. Heimastúlkur voru nálægt því að jafna metin á 89. mínútu leiksins en Blikastúlkur björguðu á línu frá Láru Júlíu Harðardóttur. Fleiri urðu mörkin ekki og lokatölur á Akureyrarvelli 1-0 sigur Breiðabliks.

Nýjast