Þór og KA gerðu bæði jafntefli

Þór og KA gerðu bæði jafntefli í sínum leikjum þegar 12. umferð var leikinn í 1. deild karla á Íslandsmótinu í knattspyrnu sl. fimmtudagskvöld. Þór sótti KS/Leiftur heim en KA heimsótti Fjarðabyggð.

Fjögur mörk voru skoruð í leik KA og Fjarðabyggðar og komu þau öll í seinni hálfleik. KA- menn komust yfir í leiknum í upphafi seinni hálfleiks með marki frá Arnari Má Guðjónssyni. Nokkrum mínútum síðar fengu heimamenn dæmda vítaspyrnu. Vilberg Marinó Jónasson fór á vítapunktinn og skoraði örugglega. Heimamenn komust svo yfir í leiknum á 66. mínútu þegar Guðmundur Atli Steinþórsson skoraði fyrir Fjarðabyggð, nýkominn inn á sem varamaður. KA- menn lágu vel á heimamönnum á lokamínútum leiksins og það skilaði sér á 91. mínútu þegar Steinn Gunnarsson náði að jafna leikinn og tryggja gestunum eitt stig. Lokatölur á Eskifjarðarvelli 2-2. Eftir leikinn hafa KA- menn 15 stig og sitja í sjöunda sæti deildarinnar.

Á Ólafsfirði byrjuðu gestirnir í Þór betur og fengu tvö ágætis færi í upphafi leiks. Eftir það datt leikurinn niður og fátt markvert gerðist fyrr en á 35. mínútu þegar Hreinn Hringsson náði góðum skalla að marki heimamanna eftir sendingu frá Aleksandar Linta en Þorvaldur Þorsteinsson í marki heimamanna varði meistaralega. Staðan markalaus í hálfleik. Hreinn Hringsson var svo aftur á ferðinni á 70. mínútu leiksins þegar hann komst einn í gegnum vörn heimamanna en Þorvaldur, sem þá var kominn út úr teignum, varði frá honum með höndum og var því rekinn útaf. Heimamenn því einum færri það sem eftir lifði leiks. Eftir þetta sóttu Þórsarar hart að marki heimamanna og freistuðu þess að vinna leikinn en allt kom fyrir ekki og lokatölur á Ólafsfjarðarvelli því markalaust jafntefli. Eftir leikinn situr Þór í áttunda sæti deildarinnar með 13 stig. 

Nýjast