Þór áfram í bikarnum eftir framlengingu

Þór tók á móti KS/Leiftri í VISA- bikarkeppni karla á Akureyrarvelli í kvöld í frekar bragðdaufum leik. Ekkert mark var skorað í venjulegum leiktíma svo grípa þurfti til framlengingar.

Leikurinn var frekar tíðindalítill og bauð upp á fá marktækifæri. Þórsarar sóttu reyndar í sig veðrið í lokin og voru óheppnir að klára ekki leikinn í venjulegum leiktíma þegar Matthías Örn Friðriksson fékk sendingu inn fyrir vörn gestanna en skot hans fór framhjá markinu.

Það þurfti því að framlengja leikinn og þar höfðu Þórsarar betur og Ármann Pétur Ævarsson skoraði eina mark leiksins fimm mínútum fyrir leikslok þegar hann skoraði með laglegu skoti í fjærhornið. Lokatölur því 1-0 sigur Þórsara sem eru komnir áfram í bikarnum.

Nýjast