Þjónustan aukin á FSA og aðgerðum fjölgað umtalsvert

Samninganefnd heilbrigðisráðherra og Sjúkrahúsið á Akureyri (FSA) hafa gert fjóra nýja samninga um læknisverk, þ.e. um liðskiptaaðgerðir, krossbandaaðgerðir, sérfræðiþjónustu í efnaskipta- og innkirtlalækningum og um sérfræðiþjónustu í taugalækningum. Þá hefur FSA gert samning við Akureyrarbæ um þjónustu á sviði öldrunarlækninga; við Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) um aðgang sérfræðinga FSA að sjúkraskrám og við Heilbrigðisstofnun Þingeyinga á Húsavík um þjónustu geðlækna FSA við skjólstæðinga hennar. Samningarnir voru undirritaðir á ársfundi Sjúkrahússins á Akureyri, sem haldinn var gær.

Samningarnir milli Samninganefndar heilbrigðisráðherra og FSA eru til marks um breyttar áherslur varðandi framboð og fjármögnun heilbrigðisþjónustu, eins og segir í frétt frá heilbrigðisráðuneytinu. Í samningunum er greitt fast verð fyrir hvert unnið verk og fylgir fjármagn þannig sjúklingi og framlög ráðast af fjölda verka. Þá er þjónustukaupum, samkvæmt samningunum, ætlað að veita þjónustu þar sem þörfin er brýnust og ávinningurinn mestur og að færa þjónustuna sem næst notendum.

Liðskiptaaðgerðum fjölgað

Samningurinn vegna liðskiptaaðgerða er til marks um þá áherslu sem heilbrigðisráðherra leggur á að eyða biðlistum eins fljótt og auðið er. Samningurinn á að tryggja að sjúklingar á þjónustusvæði sjúkrahússins þurfi ekki að leita annað eftir þjónustu. Aðgerðir eru það margar að möguleiki er á að þjónusta sjúklinga utan þjónustusvæðisins. Samningurinn er til tveggja ára og á þeim tíma tekur sjúkrahúsið að sér allt að 160 liðskiptaaðgerðir. Kostnaður vegna þessara aðgerða er nálægt 50 milljónum króna á ári þau tvö ár sem samningurinn nær til. Með þessum samningi er stefnt að því að um 220 liðskiptaaðgerðir verði framkvæmdar á Sjúkrahúsinu á Akureyri ár hvert.

Krossbandaaðgerðir

Samningurinn um krossbandaaðgerðir miðast fyrst og fremst við að færa þjónustu í heimahérað og spara sjúklingum þannig ferðakostnað, tíma og óhagræði. Fram að þessu hafa sjúklingar þurft að leita til Reykjavíkur vegna þessara aðgerða og ljóst að samningurinn mun spara notendum umtalsverðar fjárhæðir og ómak. Samningurinn er til tveggja ára og tekur sjúkrahúsið að sér að veita allt að 100 aðgerðir á samningstímanum eða 50 á ári. Kostnaður vegna samningsins er um 15 milljónir króna á ári þau tvö ár sem hann nær til.

Aukið þjónusta í heimahéraði

Samningarnir um sérfræðiþjónustu í efnaskipta- og innkirtlalækningum annars vegar og sérfræðiþjónustu í taugalækningum hins vegar miða fyrst og fremst að því að fylla þjónustuframboð sjúkrahússins þannig að þjónusta sé í ríkari mæli í boði í heimahéraði. Árlegur kostnaður vegna þeirra beggja er um 4 milljónir króna. Þess má geta að á þriðja hundrað manns á starfssvæði FSA hafa árlega þurft að leita suður eftir þjónustu á þessum sviðum.

Öldrunarlækningar á einni hendi

Samningur Sjúkrahússins á Akureyri og Akureyrarbæjar um þjónustu FSA við öldrunarheimilin á Akureyri felur það í sér að frá og með 1. september nk. mun sjúkrahúsið annast læknis- og vaktþjónustu á öldrunarheimilum Akureyrarbæjar. Þar með verða allar öldrunarlækningar í sveitarfélaginu á einni hendi, þ.e. hvað varðar öldrunarheimili Akureyrarbæjar, öldrunarlækningadeild FSA á Kristnesspítala og hjúkrunardeildina í Seli. Öldrunarlæknum við FSA verður fjölgað um tvo þegar samningurinn tekur gildi og þjónusta á þessu sviði mun aukast verulega.

Þáttaskil á sviði upplýsingatækni

Samningur Sjúkrahússins á Akureyri og Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) um aðgang sérfræðinga FSA að sjúkraskrám þeirra sjúklinga sem þeir sinna fyrir HSA markar ákveðin þáttaskil á sviði upplýsingatækni í heilbrigðisþjónustu. Með samningnum einfaldast allt vinnuferli og samstarf lækna HSA og FSA eykst og verður skilvirkara.

Sérfræðiþjónusta á sviði geðlækninga

Samningur Sjúkrahússins á Akureyri og Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga á Húsavík um þjónustu geðlækna FSA við skjólstæðinga hennar felur í sér að sérfræðingar FSA í geðlækningum fara til Húsavíkur tvo daga í mánuði og veita sjúklingum á upptökusvæði Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga þjónustu sína.

Styrkir stöðu sjúkrahússins enn frekar

"Ég er mjög ánægður með þá samninga sem undirritaðir voru hér á ársfundinum. Þeir eru afrakstur mikillar vinnu og undirbúnings og eiga það sameiginlegt að styrkja stöðu Sjúkrahússins á Akureyri enn frekar sem annað meginsjúkrahús landsins. Það er ekki síður mikilvægt í mínum huga að þessir samningar efla samstarf á milli stofnana og á milli svæða og styrkja þar með uppbyggingu sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu í landshlutanum," segir Halldór Jónsson, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri. Hann segir stefnu sjúkrahússins að færa þjónustuna sem næst þeim sem þurfi á henni að halda, fjölga aðgerðum og eyða biðlistum og þessir samningar séu stórir áfangar á þeirri leið.

Vaxandi starfsemi á öllum sviðum

Sem fyrr segir var ársfundur Sjúkrahússins á Akureyri haldinn í dag. Á fundinum kom m.a. fram að starfsemi FSA hélt áfram að vaxa á öllum sviðum á árinu 2007. Sjúklingar (dvalir) voru alls 8.402, þar af 5.585 á legudeildum, og er það aukning um 4,4% á milli ára. Legudagur voru 44.337. Skurðagerðir voru 4.287 og fjölgaði um 4%. Rekstrargjöld ársins námu 4.157 milljónum króna en heilt yfir var afkoma sjúkrahússins einungis 3,1 milljón króna lakari en endurskoðuð áætlun gerði ráð fyrir eða 0,1%.

Á árinu störfuðu 895 einstaklingar á FSA, 742 konur og 153 karlar. Konur voru því um 83% starfsmanna og er það svipað hlutfall og undanfarin ár.

Nýjast