Tap hjá Þórs/KA stelpum í kvöld

Þórs/KA stelpur tóku á móti Fylki í sjöttu umferð Landsbankardeildar kvenna í kvöld. Það var ekki áferða falleg knattspyrna sem boðið var upp á á Akureyrarvelli þar sem báðum liðum gekk illa að skapa sér marktækifæri og einkenndist leikurinn af baráttu. Fylkisstúlkur skoruðu hins vegar eina mark leiksins og hirtu öll þrjú stigin.

Fyrri hálfleikurinn var mjög bragðdaufur, fá marktækifæri hjá báðum liðum en þó virtust heimastúlkur vera ívið sterkari. Staðan markalaus í hálfleik. Fylkisstúlkur fengu dæmda vítaspyrnu snemma í síðari hálfleik þegar boltinn virtist fara í hönd leikmanns Þórs/KA. Berglind Magnúsdóttir í marki heimamanna gerði sér hins vegar lítið fyrir og varði spyrnuna.

Það virtist allt stefna í markalaust jafntefli í leiknum en þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma fengu Fylkisstúlkur aukaspyrnu á stórhættulegum stað. Laufey Björnsdóttir tók spyrnuna og skoraði með stórglæsilegu skoti yfir Berglindi í marki Þórs/KA. Þetta reyndist vera síðasta spyrna leiksins og lokatölur á Akureyrarvelli 1-0 sigur Fylkis.

Þórs/KA stelpur sitja í fimmta sæti deildarinnar með sjö stig eftir sex umferðir.

Nýjast