Fyrri hálfleikurinn var mjög bragðdaufur, fá marktækifæri hjá báðum liðum en þó virtust heimastúlkur vera ívið sterkari. Staðan markalaus í hálfleik. Fylkisstúlkur fengu dæmda vítaspyrnu snemma í síðari hálfleik þegar boltinn virtist fara í hönd leikmanns Þórs/KA. Berglind Magnúsdóttir í marki heimamanna gerði sér hins vegar lítið fyrir og varði spyrnuna.
Það virtist allt stefna í markalaust jafntefli í leiknum en þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma fengu Fylkisstúlkur aukaspyrnu á stórhættulegum stað. Laufey Björnsdóttir tók spyrnuna og skoraði með stórglæsilegu skoti yfir Berglindi í marki Þórs/KA. Þetta reyndist vera síðasta spyrna leiksins og lokatölur á Akureyrarvelli 1-0 sigur Fylkis.
Þórs/KA stelpur sitja í fimmta sæti deildarinnar með sjö stig eftir sex umferðir.