Þórsarar lágu fyrir Eyjamönnum á útivelli í 13. umferð 1. deildar karla á Íslandsmótinu í knattspyrnu í gærkvöldi. Lokatölur á Hásteinsvelli, 4-1 sigur heimamanna eftir að gestirnir höfðu komist marki yfir snemma í leiknum.
Eyjamenn byrjuðu leikinn af krafti og sóttu að marki gestanna. Það voru hins vegar Þórsarar sem skoruðu fyrsta mark leiksins sem kom úr þeirra fyrstu sókn og það gerði Ibra Jagne eftir átta mínútna leik eftir sendingu frá Hreini Hringssyni. Þetta var kjaftshögg fyrir heimamenn sem voru nokkrar mínútur að ná áttum eftir markið en náðu fljótlega tökum á leiknum á ný. Eyjamenn náðu að jafna metin á 27. mínútu og þar var að verki markaskorarinn Atli Heimisson. Eftir jöfnunarmarkið tóku Eyjamenn öll völd í leiknum og sóttu hart að marki gestanna. Heimamenn fengu svo dæmda vítaspyrnu á lokamínútum fyrri hálfleiks eftir að Atli Heimisson hafði fallið við í teig gestanna. Bjarni Hólm Aðalsteinsson fór á vítapunktinn og skoraði af öryggi. Staðan í hálfleik 2-1 fyrir heimamenn.
Síðari hálfleikur var rólegri en sá fyrri. Eyjamenn höfðu hægt um sig og lögðu áherslu á að fá ekki á sig mark og beittu hættulegum skyndisóknum. Eftir þunga sókn Eyjamanna á 62. mínútu leiksins skoraði Andri Ólafsson með skalla af stuttu færi og kom heimamönnum í 3-1. Atli Heimisson átti svo lokaorðið í leiknum þegar hann skoraði eftir vel heppnaða skyndisókn Eyjamanna og tryggði heimamönnum 4-1 sigur á Þór.
Eftir leikinn er Þór í áttunda sæti deildarinnar með 13 stig eftir 13 leiki.