Þórs/KA stúlkur sóttu KR- inga heim í Landsbankadeild kvenna í gær í bráðfjörugum leik á KR- vellinum. Marktækifærin létu ekki á sér standa, fjögur mörk voru skoruð og voru Þórs/KA stúlkur óheppnar að fá ekkert út úr leiknum.
KR- stúlkur byrjuðu leikinn af miklum krafti og áttu fyrsta færi leiksins strax á fyrstu mínútu þegar Hólmfríður Magnúsdóttir skaut rétt yfir markið. Heimastúlkur lágu vel á gestunum og það skilaði marki á 21. mínútu þegar Fjóla Dröfn Friðriksdóttir skoraði framhjá Berglindi Magnúsdóttir í marki gestanna og kom KR- stúlkum yfir. Eftir markið fóru Norðanstúlkur að bíta meira frá sér og færðu sig framar á völlinn. Alexandra Tómasdóttir átti dauðafæri á 29. mínútu en henni mistókst að jafna leikinn. Hún gerði hinsvegar enginn mistök þremur mínútum síðar þegar hún fékk góða sendingu inn fyrir vörn KR- inga og skoraði glæsilegt mark og jafnaði leikinn fyrir Þórs/KA stúlkur. Staðan í hálfleik 1-1.
Seinni hálfleikurinn fór vel af stað og jafnræði var með liðunum. Þegar um tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik misstu KR- stúlkur mann útaf þegar Ólína G. Viðarsdóttir fékk að líta rauða spjaldið. Heimastúlkur efldust við þetta og fóru að sækja hart að marki gestanna. En Norðanstúlkur fengu líka sín færi. Á 71. mínútu átti Mateja Zver, sem var að leika sinn fyrsta leik með Þór/KA, góða stungusendingu inn á Rakel Hönnudóttir sem var sloppin ein í gegn en lét markvörð KR- inga, Maríu Björg Ágústsdóttir, verja frá sér úr dauðafæri. Aðeins mínútu síðar komust KR- stúlkur yfir með marki frá Eddu Garðarsdóttir sem kom heimastúlkum í 2-1. Þremur mínútum síðar bættu heimastúlkur sínu þriðja marki við og þar var að verki landsliðskonan, Hólmfríður Magnúsdóttir, sem skoraði glæsilegt mark og kom KR- stúlkum í ansi vænlega stöðu. Norðanstúlkur gáfust ekki upp og reyndu hvað þær gátu til að jafna metin. Rakel Hönnudóttir átti fín færi í lok leiksins en allt kom fyrir ekki og lokatölur á KR- vellinum, 3-1, sigur KR- inga.