13. júní, 2008 - 13:32
Fréttir
Alls verða 328 kandídatar brautskráðir á háskólahátíð Háskólans á Akureyri, sem haldin verður í
Íþróttahöllinni á Akureyri á morgun, laugardaginn 14. júní nk. og hefst kl. 10:30.
Af þessum hópi eru 98 sem hafa stundað fjarnám fyrir milligöngu háskólasetra og símenntunarmiðstöðva á 14 stöðum
á landinu. Að þessu sinni verða lögfræðingar úrskrifaðir frá Háskólanum á Akureyri í fyrsta skipti og eru þeir
10 talsins. Þessir fyrstu lögfræðingar frá háskólanum eiga að baki fimm ára laganám, þ.e. þriggja ára BA nám
í lögfræði og tveggja ára meistaranám, sem veitir lærdómstitilinn
magister legis (ML), sem jafngildir embættisprófi í
lögfræði. Háskólaárið 2007-2008 stunduðu rúmlega 1600 nemendur nám í fjórum deildum við Háskólann
á Akureyri. Ríflega þriðjungur þeirra stundaði fjarnám á u.þ.b. 20 stöðum á landinu.
Umsóknarfrestur um nám við Háskólann á Akureyri rann út nýlega og hafa alls borist rúmlega 900 umsóknir frá nýnemum
sem er met í sögu skólans. Þetta er gífurleg aukning frá fyrri árum og til samanburðar má nefna að árið 2007 sóttu 730
nýnemar um nám við skólann. Flestir nýnemar hafa sótt um nám við Viðskipta- og raunvísindadeild eða 318 manns. Um nám í
Heilbrigðisdeild sækja 119 manns og þá sækja 310 um nám í Kennaradeild og 157 um nám í Félagsvísinda- og lagadeild en
þessar tvær deildir verða sameinaðar í haust undir nafninu Hug- og félagsvísindadeild.