Sverrir var fæddur 30. mars árið 1928, Innbæingur, fæddur þar og uppalinn. Hann bjó og starfaði alla tíð á Akureyri og í Eyjafirði. Á vef Smámunasafnsins segir m.a. að Sverrir hafi sérhæft sig í að gera upp gömul hús og fengið margvíslegar viðurkenningar fyrir ómetanleg störf sín á því sviði. Þar segir ennfremur: "Sverrir hefur farið sínum ötulu höndum um mörg elstu og sögufrægustu húsin á Akureyri og í nágrenni. Hann hefur einnig komið að endurgerð og viðhaldi nokkurra kirkna í Eyjafirði, Grundarkirkju, Grenivíkurkirkju, Möðruvallakirkju og fleiri. Flest þessara húsa risu á 19. öld. Safnarinn Sverrir var að störfum við þessa vinnu ekki síður en húsasmíðameistarinn Sverrir, vökult söfnunaraugað kvikaði hvergi. Hann varðveitti timbur og nagla ásamt öðrum hlutum úr þessum gömlu húsum sem annars hefðu lent á hauginum. Úr þessum gamla viði og nöglum hefur hann útbúið sýningargripi, sérstaka skúlptúra sem jafnframt eru einstakir minjagripir. Sverrir hélt sjálfur utan um safngripi sína í Aðalstræti 38 á Akureyri þar til á vormánuðum árið 2003 en þá gaf hann Eyjafjarðarsveit safnið með því skilyrði að undir það fengist rúmgott húsnæði. Smámunasafnið er vel sett í Sólgarði því Sverrir var ungur að árum vinnumaður í Saurbæjarhreppi og hefur gert upp kirkjur þar."