Þórs/KA stúlkur gerðu góða ferð suður á bóginn þegar þær mættu Keflavíkurstúlkum á Sparisjóðsvellinum í Landsbankadeild kvenna í knattspyrnu í gærkvöldi. Norðanstúlkur skoruðu fimm mörk án þess að heimastúlkur næðu að svara fyrir sig og markadrottningin Rakel Hönnudóttir skoraði þrennu fyrir gestina.
Leikurinn var jafn og spennandi strax í upphafi leiks en þó sóttu heimastúlkur ívið meira. Fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós á 24. mínútu, gestirnir fengu þá dæmda aukaspyrnu á ágætum stað og úr henni skoraði Bojana Besic með þrumuskoti í þverslánna og inn og kom gestunum yfir og var það gegn gangi leiksins. Markadrottningin Rakel Hönnudóttir skoraði annað mark gestanna með síðustu spyrnu fyrri hálfleiks þegar hún lagði boltann í netið eftir að hafa spólað sig í gegnum vörn heimastúlkna og Þórs/KA stúlkur leiddu því 2-0 í hálfleik.
Í seinni hálfleik sóttu Keflavíkurstúlkur hart að marki gestanna en Þórs/KA stúlkur voru agaðar í sínum varnarleik og staðráðnar í því að hleypa heimastúlkum ekki inn í leikinn. Það var svo á 83. mínútu að þriðja mark leiksins kom og það gerði Ivana Ivanovic fyrir gestina eftir mikinn darraða dans í markteig heimastúlkna og öruggur sigur Þórs/KA í höfn. En gestirnir voru ekki hættir og aðeins tveimur mínútum síðar bætti Rakel Hönnudóttir öðru marki sínu við í leiknum og fjórða marki Þórs/KA eftir að hafa farið illa með vörn heimastúlkna. Rakel fullkomnaði svo þrennuna með marki á uppbótartíma og tryggði Þórs/KA stúlkum öruggan 5-0 sigur á Keflavíkurstúlkum.
Eftir leikinn situr Þór/KA í sjötta sæti deildarinnar með 10 stig eftir átta leiki en á leik til góða gegn Stjörnunni.