Stórsigur hjá Þórs/KA stúlkum í dag

Þórs/KA stúlkur unnu öruggan 4-0 sigur á Sindra frá Hornarfirði þegar liðin mættust á Akureyrarvelli í dag í 16- liða úrslitum VISA- bikarkeppni kvenna. Rakel Hönnudóttir skoraði þrennu fyrir heimastúlkur og Alexandra Tómasdóttir eitt.

Heimastúlkur voru mun betri allan leikinn og hefði sigurinn hæglega geta orðið stærri. Fyrsta mark leiksins kom á 28. mínútu og þar var að verki markaskelfirinn Rakel Hönnudóttir eftir að hún náði að hrista af sér varnarmann Sindra og lék á markvörð gestanna áður en hún lagði boltann í autt markið. Staðan í hálfleik 1-0 heimastúlkum í vil.

Seinni hálfleikurinn var eign Þórs/KA stúlkna og þær voru ekki lengi að láta af sér kveða því Alexandra Tómasdóttir skoraði strax á 49. mínútu þegar hún vippaði boltanum yfir markvörð gestanna utan úr teig og kom heimastúlkum í 2-0. Aðeins fimm mínútum síðar bætti Rakel Hönnudóttir við öðru marki sínu í leiknum og þriðja marki Þórs/KA stúlkna. Það var svo á 59. mínútu að Rakel fullkomnaði þrennuna þegar hún skoraði með laglegu skoti í fjærhornið.

Glæsilegur sigur hjá Þórs/KA stúlkum sem eru nú komnar í 8- liða úrslit VISA- bikarkeppninnar.

Nýjast