Í leik KA og Leiknis var jafnræði með liðunum í byrjun leiks en gestirnir voru þó ávallt líklegri til að skora. En það voru heimamenn sem náðu forystunni fjórum mínútum fyrir leikhlé þegar Guðmundur Óli Steingrímsson skoraði eftir sendingu frá Dean Martin. Staðan í hálfleik 1-0 KA í vil.
Seinni hálfleikur leiksins var ansi líflegur. Andri Fannar Stefánsson kom heimamönnum í 2-0 á 63. mínútu þegar hann tók glæsilegan sprett upp völlinn og spólaði sig í gegnum vörn gestanna, plataði markmanninn og lagði boltann í autt markið. Stórkostlega gert hjá drengnum. Aðeins tveimur mínútum síðar bætti þjálfari KA- liðsins Dean Martin þriðja marki heimamanna við með glæsilegu skoti fyrir utan teig og staðan orðin ansi vænleg fyrir heimamenn. Þeir voru þó langt frá því að vera saddir og á 72. mínútu leiksins skoraði Dean Martin sitt annað mark í leiknum og fjórða mark KA- manna þegar hann vippaði glæsilega yfir markvörð Leiknis. KA- menn héldu áfram að sækja og nú var komið að þætti fyrirliðans Almars Ormarssonar en hann skoraði tvívegis á tveggja mínútna kafla á lokamínútum leiksins og tryggði heimamönnum öruggan 6-0 sigur.
Eftir leiki dagsins hafa KA- menn 11 stig í fimmta sæti deildarinnar en Þór situr í áttunda sæti með níu stig.