Stefnir í að eldsneytiskostnaður SVA verði 20 milljónir í ár

Gera má ráð fyrir að eldsneytiskostnaður Strætisvagna Akureyrar verði um 30% hærri er ráð var fyrir gert í áætlun ársins.  Stefán Baldursson framkvæmdastjóri segir að kostnaðurinn hafi verið ríflega áætlaður, en stefni samt langt fram úr því sem menn gerðu ráð fyrir þegar unnið var að gerð fjárhagsáætlunar í lok liðins árs.  

Stefán segir að eldsneytiskostnaður strætisvagnanna hafi verið á bilinu 11 til 12 milljónir króna í fyrra og fyrir þetta ár hafi menn talið að 14,5 milljónir myndu duga.  Langur vegur væri því frá, allt stefni í að eldsneytiskosnaður verði tæpar 20 milljónir króna í ár.  Að auki segir hann öll aðföng hafa hækkað, aðkeypt þjónusta, flutningskostnaður, varahlutir, hjólbarðar svo eitthvað sé talið.  "Þetta er vissulega nokkuð svakalegt," segir Stefán, en bætir við að góðu fréttirnar séu þær að farþegum fjölgi jafnt og þétt. 

Þetta er annað árið sem ókeypis er í strætó á Akureyri og nemur aukning farþega á þeim tíma um 130%.  "Það er pólitísk ákvörðun hvernig tekið verður á málum, vitanlega er eitt ráðið til að bregðast við kostnaðarhækkunum það að draga úr þjónustu en það skýtur auðvitað skökku við þegar litið er til sífelldrar fjölgunar farþegar.  Við gerum ráð fyrir að sú þróun haldi áfram, einkum í ljósi hækkandi verðs á eldsneyti, bæjarbúar sjá sér hag í að spara einkabílinn og nýta strætó," segir Stefán.

Nýjast