Janez Fejfar forseti félagsins segir að félagsmenn geri margt sér til skemmtunar og kartaflan sé ávallt í öndvegi þegar að þeim kemur. Fyrsta laugardag í september er blásið til mikillar kartöfluhátíðar í Slóveníu og sækir hana vaxandi fjöldi fólks. "Svo höfum við fyrir sið að ferðast einu sinni á ári út fyrir land okkar og Ísland varð fyrir valinu að þessu sinni," segir hann en einkum og sér í lagi er ferðin hingað tilkomin vegna tengsla gegnum Valgarð. Ferðirnar eru eins konar kartöfluleiðangur, eða "mission" eins og Janez nefndi það og kynna félagsmenn sér þá allt sem viðkemur kartöflum í viðkomandi landi. Hópurinn hafði komið við í Þykkvabæ og notið þar gestrisni og velvildar heimamanna.
Hópurinn kom til Akureyrar á þriðjudag og var efnt til móttöku á Friðrik V af því tilefni. Bergvin Jóhannsson í Áshóli, formaður Félags kartöflubænda og hans fjölskylda var á staðnum og miðlaði af þekkingu sinni en félagar sóttu einnig Áshól heim og litu yfir garða ábúenda. Eins og vera ber var boðið upp á margvíslega nýstárlega kartöflurétti á Friðrik V og Friðrik V. Karlsson vert greindi gestum frá sögu hússins um leið og veitinga var notið.