Óskar segir að fjölskyldan fari öll saman út til Kanada, en þar ætlar hann að halda áfram rannsóknum sínum á trúarlífi Vestur-Íslendinga. "Ég hóf að rannsaka það þegar ég var í guðfræðideildinni. Það er langþráður draumur að komast á slóðir Vestur-Íslendinga, kynnast fólkinu og skoða aðstæður en auk þess fæ ég rannsóknaraðstöðu við bókasafnið í Háskólanum í Manitoba sem geymir gríðarlegt magn heimilda um vesturferðirnar í kringum aldamótin nítjánhundruð," segir Óskar.