13. júní, 2008 - 15:14
Fréttir
Um helgina fara Bíladagar fram hér á Akureyri og eins og ávallt þessa helgi er von á miklum fjölda fólks til bæjarins og þá
ekki síst skemmtanaþyrstum unglingum.
Mikil ölvun og ofbeldi hefur einkennt þessa helgi undanfarin ár og hefur það farið fyrir brjóstið á fólki sem finnst vera nóg
komið. Daníel Guðjónsson yfirlögregluþjónn segir að lögreglueftirlit verði hert um helgina og meiri viðbúnaður verði í
ár heldur en í fyrra, m.a. í fjölgun lögreglumanna á vakt. Yfirráðafólk tjaldsvæðanna hefur gripið á það
ráð að takmarka aðgang að tjaldsvæðunum með aldurstakmarki. Þannig er 20 ára aldurstakmark við tjaldsvæðin á Akureyri og 25
ára aldurstakmark á tjaldsvæðið á Hrafnagili. Aðspurður segir Daníel að það sé rétt leið að hafa há
aldurstakmörk til að leysa vandann sem hefur einkennt þessa helgi hingað til. "Ég held að þetta sé rétt leið til að sporna við
þessari útihátíðarstemmningu sem hefur verið einkennandi hérna undanfarin ár á tjaldsvæðunum," segir Daníel.
Björgvin Ólafsson, blaðafulltrúi Bílaklúbbs Akureyrar, segir félagana í klúbbnum ekki vera ánægða með þetta en
þeir láti þetta ekki á sig fá og sætti sig bara við þetta. "Það er ekkert annað í stöðunni og reyna að vinna bara
heimavinnuna betur fyrir næsta ár," segir Björgvin.