Rekstrarafkoma FSA í byrjun árs er verri en áætlað var

Rekstrarafkoma Sjúkahússins á Akureyri eftir fyrstu fjóra mánuði ársins er heldur verri en áætlanir gerðu ráð fyrir.  Launakostnaður hefur aukist og almenn rekstrargjöld hafa hækkað, einkum vegna áhrifa af verðlagsbreytingum og hækkun á gengi.   

Í lok aprílmánaðar er rekstrarkostnaður umfram tekjur og fjárveitingar 46,8 milljónir eða 3,6% miðað við fjárlög.   Nokkrar breytingar hafa orðið á starfsemi sjúkrahússins fyrstu fjóra mánuði ársins miðað við fyrra ár.  Ef frá er talin fækkun legudaga í hjúkrunarrýmum (Sel) hefur legudögum fjölgað um 4% en fjöldi sjúklinga er svipaður.  Aðgerðum hefur fækkað um 10% en helmingur þess stafar af fækkun blöðruspeglana.  Komum á slysadeild hefur fjölgað um 16,7% frá síðasta ári.  Veruleg aukning hefur orðið á myndgreiningum, speglunum og vefjarannsóknum en almennar rannsóknir standa í stað. 

Launakostnaður í lok apríl nemur 1.029 milljónum og hefur hækkað um 12,5% miðað við árið 2007.  Á tímabilinu hefur launakostnaður farið 24 milljónir króna framúr áætlun eða 2,4%.  Ástæður þess eru m.a. aukin langtímaveikindi sem leitt hafa af sér fjölgun á setnum stöðum og fleiri aukavaktir.  Þá hafa áhrif stofnanasamninga og launaskrið leitt af sér meiri hækkanir en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Almenn rekstrargjöld nema samtals 394 milljónum og hafa hækkað um 7,6% miðað við fyrra ár.  Vísitala neysluverðs hefur hækkað að meðaltali um 8,3% að meðaltali frá fyrra ári en í forsendum fjárlaga var aðeins gert ráð fyrir 3,8% hækkun. Þá hafði í apríllok orðið um 25% hækkun á gengisvísitölu en hún hefur bein áhrif á um helming almennra rekstrargjalda.  Lyfjakostnaður hefur hækkað um 7% milli ára, þar af S-merkt lyf um 11,5%.  Vörur til lækninga og hjúkrunar hafa einnig hækkað um 7% og veruleg hækkun hefur orðið á varahlutum til lækningatækja og búnaðar.  Í heildina hafa almenn rekstrargjöld farið 23 milljónir framúr áætlun eða 6,2%. Sértekjur fyrstu fjóra mánuði ársins eru 123 milljónir og hafa hækkað um 15% og er það í samræmi við áætlun. 

Gera má ráð fyrir að rekstrarkostnaður hækki enn hlutfallslega eftir því sem líður á árið og áhrifa hækkandi verðlags og gengis gætir í auknum mæli, segir í frétt á vef FSA. 

Nýjast