Ósk um eingreiðslu til bæjarstarfsmanna hafnað

Bæjarráð Akureyrar hafnaði á fundi sínum í gær erindi frá Einingu-Iðju og Kili þar sem óskað var eftir því að Akureyrarkaupstaður greiddi öllum starfsmönnum sínum ákveðna eingreiðslu vegna góðrar afkomu sveitarfélagsins.  

Baldvin H. Sigurðsson og Jóhannes G. Bjarnason sátu hjá við afgreiðslu bæjarráðs. Nýlega sendi Eining-Iðja bréf til allra sveitarfélaga á félagssvæðinu þar sem óskað var eftir því að viðkomandi sveitarfélag greiði öllum starfsmönnum sínum ákveðna eingreiðslu. Slíkt bréf var þó ekki sent til Fjallabyggðar því sveitarfélagið hafði upp á sitt einsdæmi samþykkt slíkar greiðslur til handa öllum fastráðnum starfsmönnum sínum og á hrós skilið fyrir það, segir á vef Einingar-Iðju. Á undanförnum mánuðum hafa fjölmörg sveitarfélög í landinu gert slíkt fyrir starfsmenn sína, nú síðast í Fjallabyggð, eins og áður segir, og fengu starfmenn slíka greiðslu þann 1. júlí sl. vegna góðrar afkomu sveitarfélagsins.

Dalvík sagði nei

Bæjarráð Dalvíkurbyggðar tók bréf félagsins fyrir á fundi sínum þann 10. júlí sl. og var erindinu hafnað. Því miður sér sveitarfélagið sér ekki fært um að umbuna starfsmönnum sínum á sama hátt og Fjallabyggð gerði, segir ennfremur á vef félagsins.

Nýjast