Ölvaður ökumaður velti bíl í Hrísey

Mildi þykir að ekki urðu slys á fólki þegar ölvaður maður tók bíl traustataki í Hrísey aðfararnótt sunnudags. Maðurinn ók á ofsahraða um eyjuna, þar til hann missti stjórn á bílnum sem endasentist út af veginum fór eina velta og endaði á hjólunum.  

Gestkomandi fólk í eyjunni var á göngu í blíðviðrinu og næturkyrrð lengsta dags ársins, þegar bifreiðin kom allt í einu á mikilli ferð í átt að því og átti fólkið fótum fjör að launa að lenda ekki fyrir bifreiðinni. Ökumaðurinn virðist hafa slokkið án teljandi meiðsla því hann kom sér heim í rúm. Lögreglan kom svo á sunnudagsmorgun, leit á aðstæður, náði manninum í bólinu og fór með hann upp á land. Nánar er fjallað um málið í Vikudegi í dag.

Nýjast