Óðinn heldur áfram að gera góða hluti

Sundfélagið Óðinn á Akureyri endaði í 4. sæti í stigakeppni félaga á Aldursflokkameistaramóti Íslands ( AMÍ ) sem haldið var í Reykjanesbæ um síðustu helgi. Sundfólkið stóð sig frábærlega en 26 krakkar kepptu fyrir hönd Óðins og féllu alls 39 Akureyrarmet á mótinu. Þá vann Elín Erla Káradóttir sér inn þátttökurétt á Norðurlandamóti æskunnar sem fram fer í Finnlandi síðar í sumar. Óðinn vann alls 15 aldursflokkameistaratitla í einstaklingsgreinum á mótinu. Þeir Arnór Ingi Hansen, Tómas Leó Halldórsson og Einar Helgi Guðlaugsson unnu allir í aldursflokki 17-18 ára, Bryndís Rún Hansen í flokki 15-16 ára, Halldóra Sigríður Halldórsdóttir, Elín Erla Káradóttir og Freysteinn Viðar Viðarsson í flokki 13-14 ára og Júlía Rún Rósbergsdóttir í flokki 12 ára og yngri.


Í boðsundum bættust við Svavar Skúli Stefánsson í flokki 17-18 ára, Karen Konráðsdóttir og Hildur Þórbjörg Ármannsdóttir í flokki 13-14 ára. Aðrir verðlaunahafar Óðins ýmist í einstaklingsgreinum og/eða í boðsundum voru Erla Hrönn Unnsteinsdóttir í flokki 15-16 ára, Arna Björg Jónasardóttir, Baldur Þór Finnsson, Oddur Viðar Malmquist og Þorsteinn Stefánsson í flokki 13-14 ára og Valgeir Hugi Halldórsson og Kári Ármannsson í flokki 12 ára og yngri.

Nýjast