Nýr starfskraftur hjá TM Software á Akureyri

Sigurður Arnar Ólafsson hefur verið ráðinn sölu- og viðskiptastjóri hjá TM Software á Akureyri. Sigurður Arnar er fæddur árið 1966. Hann er með rekstrarfræðigráðu frá Háskólanum á Akureyri frá 1990, kerfisfræðigráðu frá Tietgenskolen, edbskolen í Óðinssvéum í Danmörku og með BS-gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri. Hann starfaði áður sem viðskiptastjóri hjá Glitni frá 2007 til 2008. Á árunum 2001-2007 starfaði hann hjá Þekkingu hf. m.a. sem sölu- og markaðsstjóri, þjónustustjóri og verkefnastjóri auk þess að vera yfirmaður hugbúnaðar- og þjónustusviðs. Það er því ljóst að Sigurður hefur mjög góða innsýn í þarfir fyrirtækja á upplýsingatæknisviði. Eitt af fyrstu verkum Sigurðar Arnars í nýju starfi verður að halda kynningu fyrir fyrirtæki og stofnanir á Norðurlandi á rekstrarþjónustu TM Software. Kynningin verður haldin á Hótel KEA á Akureyri, fimmtudaginn 5. júní nk. og hefst hún með morgunverði klukkan 8:15. Þar verður boðið upp á stutta kynningu á TM Software og farið í gegnum Microsoft SharePoint lausnina sem samþættar skjalastjórnun og aðgengi að upplýsingasjóði fyrirtækja en hjá TM Software starfa helstu sérfræðingar landsins í SharePoint lausninni og verður farið yfir innleiðingu lausnarinnar hjá tveimur ólíkum íslenskum fyrirtækjum. Einnig verða kerfisveita og hýsing TM Software kynnt ásamt öryggislausnum en með stöðugum rannsóknum og þróunarstarfi til margra ára hefur TM Software þróað lausnir sem byggja á því besta sem völ er á hverju sinni til að tryggja upplýsingaöryggi viðskiptavina sinna. Ráðgjafi hjá TM Software mun svo kynna þjónustumiðstöð TM Software en hún er opin allan sólarhringinn, allan ársins hring. Að lokum fá þátttakendur í kynningunni tækifæri á að spyrja ráðgjafa TM Software spurninga en einnig verður boðið upp á einkafundi strax að lokinni kynningu.


TM Software
TM Software er framúrskarandi alhliða upplýsingatæknifyrirtæki sem nýtir þekkingu og hæfni starfsmanna til að styrkja starfsemi viðskiptavina. TM Software hefur meira en tveggja áratuga reynslu á markaði og er með sérstöðu í hugbúnaðarþróun, rekstri, ráðgjöf og búnaðarlausnum. TM Software er eitt stærsta og öflugasta upplýsingatæknifyrirtæki landsins með um 240 starfsmenn, segir í fréttatilkynningu.

Nýjast