Nýr heilsársvegur yfir Kjöl yrði mikið framfaraspor

"Ég tel að nýr Kjalvegur yrði  mikið framfaraspor fyrir samfélagið, hann myndi auka samgöngur á milli Suður- og Norðurlands, efla menningartengsl milli þessara landshluta sem og hefur hann góð áhrif hvað atvinnu varðar. Nýr heilsársvegur yfir Kjöl myndi skapa margvíslega nýja möguleika," segir Kjartan Ólafsson alþingismaður.   

Hann situr fyrir Sjálfstæðisflokk í Suðurkjördæmi og flutti þingsályktunartillögu á Alþingi í vetur um heilsársveg yfir Kjöl. Kjartan segir að við ramman reip sé að draga, en hann muni ekki gefast upp.  Kvaðst hann hafa mætt mikilli mótspyrnu úr ýmsum herbúðum varðandi hugmyndir um lagningu heilsársvegar yfir Kjöl en verst sé að málið fái ekki þann framgang að gerðar verði þær úttektir og kannanir sem nauðsynlegar eru til að ganga úr skugga um hvort Kjalvegur yrði hagkvæmur kostur eður ei og eins þyrfti að skoða umhverfisþætti málsins gaumgæfilega.

Kjartan segir að þing muni koma saman í september og sitja í 10 daga en að því loknu ljúki formlega þingvetrinum 2007 til 2008.  Það sé nýjung en áður þurfti að taka mál fyrir að nýju hefðu þau ekki náð fram að ganga á vorþingi.  "Ég bíð eftir að samgöngunefnd afgreiði málið frá sér, mér þykir mikil nauðsyn á að þessar kannanir á hagkvæmni og umhverfisþáttum verði gerðar.  Sjálfur er ég sannfærður um jákvæð áhrif þessa vegar, hann styttir vegalengdir og það skiptir miklu nú, að spara bensín og olíu og minnka útblástur," segir Kjartan.

Nýjast