16. maí, 2008 - 12:31
Fréttir
Í vikunni luku 19 konur námskeiðinu Brautargengi á Akureyri og var útskriftin haldin á veitingastaðnum Friðriki V. Þessar konur hafa undanfarnar
15 vikur unnið að viðskiptahugmyndum sínum.
Um þriðjungur þessara kvenna er kominn af stað með rekstur nú þegar. Konurnar 19 sóttu námskeiðið frá Skagafirði,
Dalvíkurbyggð, Akureyri og Norðurþingi. Námskeiðið, sem haldið er á vegum Impru á Nýsköpunarmiðstöð Íslands, var
að þessu sinni einnig kennt á Hellu og á Ísafirði. Þessir hópar hafa setið saman tvisvar á námskeiðstímanum, í
Reykholti og í Nesbúð, og verið þannig saman um ákveðinn hluta kennslu og kynninga og haft tækifæri til að mynda gott tengslanet sín
á milli. Í haust fagnar Impra 10 ára afmæli Brautargengis en í heild hafa vel á áttunda hundrað konur útskrifast frá því
Brautargengisnámskeiðin hófust í Reykjavík. Á Akureyri lauk tíunda Brautargengisnámskeiðinu með útskrift 19 kvenna 15. maí
sl. en þessa dagana er einnig verið að útskrifa konur á Ísafirði, Hellu og í Reykjavík.
Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri Akureyrarbæjar veitti tvær viðurkenningar fyrir gott gengi á námskeiðinu. Sveinbjörg
Hallgrímsdóttir sem fékk hvatningarviðurkenningu Brautargengis á Akureyri fyrir viðskiptaáætlun sína um Svartfugl - Skínandi fagur, sem
miðast að því að gefa verkum listamannsins Sveinbjargar Hallgrímsdóttur framhaldslíf í formi gjafakorta og ýmissa vara. Viðurkenningu
fyrir bestu viðskiptaáætlunina fékk Sigurbjörg Helga Pétursdóttir fyrir verkefnið Stekkur bókhaldsþjónusta. Brautargengi er
námskeið í gerð viðskiptaáætlana. Það er opið fyrir allar konur, hvort sem þær eru með hugmyndir sem þær vilja
þróa og skoða nánar eða konur sem þegar eru í rekstri.