KA- menn töpuðu sínum öðrum leik í röð í 1. deild karla á Íslandsmótinu í knattspyrnu þegar þeir töpuðu naumlega gegn Víkingi Ó. í Ólafsvík um helgina. KA- menn byrjuðu leikinn betur og voru líklegri til að skora og átti Almarr Ormarsson m.a. skalla í þverslánna snemma í leiknum. Það voru hins vegar heimamenn sem áttu besta færi fyrri hálfleiksins og það fékk Dalibor Nedic þegar hann þrumaði boltanum yfir úr dauðafæri í markteignum. Staðan markalaus í hálfleik.
KA- menn héldu áfram að sækja í seinni hálfleik og það bar árangur á 57. mínútu og var það fyrirliði KA- liðsins Almarr Ormarsson sem var þar á ferðinni og skoraði með föstu skoti. Eftir markið fóru Víkingar að pressa meira að marki gestanna og náðu hægt og bítandi tökum á leiknum. Þeir náðu að jafna leikinn á 71. mínútu þegar Brynjar Víðisson skoraði beint úr aukaspyrnu eftir að Matus Sandor í marki KA hafði misreiknað boltann. Heimamenn sóttu stíft í lokin og þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma skoraði Gísli Freyr Brynjarsson sigurmarkið í leiknum. KA- menn rétt náðu að taka miðju áður en dómarinn flautaði leikinn af.
Lokatölur á Ólafsvíkurvelli 2-1 sigur heimamanna. Grátlegt tap hjá KA- mönnum sem voru óheppnir að ná ekki stigi úr leiknum. Eftir að hafa verið komnir á ágætis skrið í deildinni hafa KA- menn nú tapað síðustu sex stigum af síðustu sex mögulegum og eru í sjötta sæti deildarinnar með 14 stig eftir 11 leiki.