Mikil lyftistöng fyrir lögreglumenn framtíðarinnar

Háskólinn á Akureyri. Mynd Daníel Starrason.
Háskólinn á Akureyri. Mynd Daníel Starrason.

Háskólinn á Akureyri er að ljúka vinnu við þátttökuyfirlýsingu vegna útboðs háskólanáms í lögreglufræðum.

„Háskólinn á Akureyri er sérstaklega vel til þess fallinn að hýsa lögreglunám á háskólastigi í framtíðinni,“ segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor HA.

HA er að ljúka vinnu við metnaðarfulla þátttökuyfirlýsingu að námi í lögreglufræðum sem skilað verður inn til Ríkiskaupa á næstu dögum. Sérstök nefnd innan skólans hefur undanfarnar vikur unnið að mótun ramma utan um þetta nýja nám.

Í yfirlýsingunni er gert ráð fyrir að námið sé í boði bæði í staðarnámi og í sveigjanlegu námi og að verklegi hluti námsins verði  þróaður í nánu samstarfi við Ríkislögreglustjóra og nýja stofnun, Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu (MSSL).

Í yfirlýsingu Háskólans á Akureyri er gert ráð fyrir 120 eininga tveggja ára starfstengdu diplómanámi en einnig er hægt að ljúka bakkalárnámi í lögreglufræðum til 180 eininga. Jafnframt er gert ráð fyrir sérsniðnu námskeiði fyrir lögreglumenn sem taka að sér verklega þjálfun nemenda, svokallaða handleiðara. Í tillögum HA er gert ráð fyrir nýju fræðasetri í lögreglufræði þar sem byggja á upp rannsóknir í lögreglufræðum en það fræðasvið hefur verið í algeru lágmarki til þessa.

Landssamband lögreglumanna hefur lagt áherslu á að hægt verði að stunda þetta nám óháð búsetu og rektor HA telur reynslu háskólans í fjarnámi og sveigjanlegu námi muni nýtast sérlega vel við uppbyggingu námsins í lögreglufræðum og auki möguleika starfandi lögreglumanna á að sækja sér viðbótarmenntun samhliða starfi. Þessi möguleiki dragi úr kostnaði nemenda og auðveldi fjölskyldufólki og fólki úr hinum dreifðu byggðum að afla sér menntunnar á þessu sviði. Í yfirlýsingu HA kemur fram listi yfir fólk sem tæki að sér kennslu grunnnámskeiða í lögreglufræðum og jafnframt listi yfir fólk með mikla reynslu úr réttarkerfinu sem er tilbúið að sinna stundarkennslu við skólann. Þóroddur Bjarnason, prófessor, verður í forsvari fyrir nýju brautina.

„Ég þekki aðstæður mjög vel á Akureyri og kennsluaðferðirnar. Ég tel að þetta nám ætti vel heima innan veggja Háskólans á Akureyri. Sérstaklega af því að HA er með fjarnámsmöguleika sem Landssamband lögreglumanna hefur lagt gríðarlega áherslu á að sé í boði fyrir tilvonandi lögreglunema,“ sagði Frímann Baldursson varaformaður Landssambands lögreglumanna þegar Vikudagur falað- ist eftir viðbrögðum hans.

Í útboðsgögnunum er gert ráð fyrir því að kennsla hefjist á haustdögum. Að sögn rektors er tíminn mjög knappur en hann telur þó að hægt verði að hefja kennsluna á áætluðum tíma, enda eru mörg af námskeiðunum þegar fullmótuð. Þó má gera ráð fyrir að það þurfi að grípa til einhvers konar aðlögunarferlis í upphafi námsins. Háskólaráð á eftir að fá málið til umfjöllunar.

Væntanlegt lögreglunám verður hýst á félagsvísinda- og lagadeild. Kjartan Ólafsson, deildarformaður, segir að ef námið komi norður verði það mikil lyftistöng fyrir lögreglumenn framtíðarinnar, fyrir landið allt og fyrir skólann. Kjartan segist hafa orðið var við mikinn áhuga fyrir þessu nýja lögreglunámi á háskólastigi og telur að allir innviðir skólans geti stuðlað að vönduðu námsframboði. Hann segir að HA hafi mikla reynslu af því að þróa starfsnám m.a. í kennslufræðum og hjúkrunarfræði. Sú reynsla komi að góðum notun við þróun starfsnáms í lögreglufræðum við Há- skólann á Akureyri. -epe

Nýjast