“Þetta er aðeins að koma til,” segir Atli Rúnarsson þjálfari Magna en þeir hafa nú unnið þrjá leiki í röð í 2. deild karla á Íslandsmótinu í knattspyrnu eftir að hafa lent í basli í byrjun móts. Magni gerði góða ferð suður í Hafnarfjörðinn nú síðast er þeir unnu öruggan 3-0 sigur á ÍH á Ásvöllum sl. föstudag. Víðir Örn Jónsson skoraði tvívegis fyrir Magna og Hreggviður Heiðberg Gunnarsson skoraði eitt mark.
Atli segir að menn séu farnir að taka hraustlega á því á æfingum og það sé að skila sér inn á vellinum. “Um leið og það kom stórt svæði á Grenivík til æfinga þá fórum við að gefa aðeins í og æfingarnar urðu kraftmeiri og það skilar sér inn á vellinum,” segir Atli. Eftir 10. umferðir situr Magni í áttunda sæti deildarinnar með 12 stig.