Magni heldur sigurgöngu sinni áfram

Magni heldur sigurgöngu sinni áfram í 2. deild karla á Íslandsmótinu í knattspyrnu en nú síðast lögðu þeir Völsung frá Húsavík 3-1 á Grenivíkurvelli í gærkvöldi. Þetta var fjórði sigurleikur liðsins í röð og er Magni kominn á blússandi siglingu í deildinni. Mörk Magna í leiknum skoruðu þeir Eiríkur Páll Aðalsteinsson, Gunnar Sigurður Jósteinsson ( víti ) og Laszlo Szilagyi. Halldór Fannar Júlíusson skoraði mark Völsungs í leiknum.

Atli Rúnarsson þjálfari Magna er að vonum ánægður með gang mála. “Það er allt á fleygiferð hjá okkur, þetta er að detta svolítið með okkur núna, meira stöngin inn heldur en stöngin út, það fylgir því þegar menn eru að leggja sig fram þá fara hlutirnir að detta meira með manni”. Atli segir meiri festu vera komna í liðið núna heldur en var í byrjun sumarsins. “Við erum þéttir til baka og svo vitum við alveg hvað við eigum að gera þegar við vinnum boltann”. Hann segir að mun léttara sé yfir strákunum núna eftir að liðið fór að rífa sig upp. “Það er mun léttara yfir mönnum á æfingum, það hefur komið aukið sjálfstraust í menn og það fer allt að hljóma roslega vel þegar hlutirnir ganga svona, menn fara að hafa meiri trú á því sem þeir eru að gera og þá fer þetta að rúlla betur,” segir Atli að lokum.

Eftir leikinn er Magni kominn í fimmta sæti deildarinnar og hefur 15 stig eftir 11 leiki.

Nýjast