Kröftugt atvinnulíf á Akureyri

Höfundur skipar 4. sæti á lista Framsóknar á Akureyri í komandi bæjarstjórnarkosningum
Höfundur skipar 4. sæti á lista Framsóknar á Akureyri í komandi bæjarstjórnarkosningum

Sverre Andreas Jakobsson skrifar

Hlutverk bæjarfélagsins

Það er öllum ljóst að fjölbreytt og kröftugt atvinnulíf er undirstaða hvers samfélags. Öflugt atvinnulíf skapar tækifæri og laðar að sér fólk með ólíkan bakgrunn og þekkingu til bæjarins.

Hlutverk bæjarfélagsins er í raun einfalt, að skapa fýsileg skilyrði fyrir fjölbreyttan rekstur og tengja aðila saman til að ná fram aukinni skilvirkni. Framsókn vill að Akureyri verði leiðandi afl á landsbyggðinni í atvinnumálum.

Atvinnulíf er í miklum blóma á Akureyri, Framsókn vill stuðla að frekari uppbyggingu á næstu árum og efla enn frekar aðkomu Akureyrarbæjar til að mæta þörfum atvinnulífsins og eiga þar frumkvæði að samtölum og samvinnu hagaðila.

Menntun og framþróun

Háskólasamfélagið er öflugt og hefur Háskólinn á Akureyri fest sig í sessi sem öflug menntastofnun. Námsframboð hefur aukist í gegnum tíðina og því eðlilegt að velta fyrir sér næstu skrefum. Krafa atvinnulífsins er á aukna tæknimenntun. Framsókn vill efla samtalið við Háskólann og ríkisvaldið um að koma á tækninámi við Háskólann á Akureyri.

Ferðaþjónusta

Á síðustu árum hafa mikilvæg skref verið tekin í uppbyggingarmálum á Akureyri tengd ferðaþjónustu. Nefni þar stækkun á flugstöðinni og flughlaði hennar sem mun efla m.a. ferðaþjónustuna á svæðinu. Framsókn vill stuðla að auknu samtali við ferðaþjónustuaðila og fara í aðgerðir sem tryggja viðgang hennar á svæðinu. Hér má nefna endurskoðun á opnunartíma á álagstímum sundlauga, skíðasvæðisins að Hlíðarfjalli, hinna fjölmörgu safna bæjarins o.fl. Framsókn vill kortleggja hvað Akureyrarbær getur gert til að gera bæinn eftirsóknarverðari áfangastað, í nánu samstarfi við innlenda og erlenda ferðaþjónustuaðila.

Nýsköpun

Nýsköpun er mikilvæg fyrir atvinnulíf og framþróun almennt. Hún leiðir til framleiðniaukningar fyrirtækja og hagræðingar. Það er mat fagaðila að samtali fyrirtækja í nýsköpun, fjárfesta, háskólasamfélagsins og atvinnurekanda hafi verið ábótavant og úr því þarf að bæta. Framsókn vill á komandi kjörtímabili efla nýsköpun og stuðla að auknu samstarfi háskólans, stofnana, frumkvöðla, fjárfesta og fyrirtækja á svæðinu. Þannig skapast ný þekking, hugvit og færni sem leiðir til nýrra tækifæra og atvinnuþróunar.

Skipulagsmál til framtíðar

Mörg af okkar öflugustu fyrirtækjum á Akureyri eru fjölbreytt verktakafyrirtæki. Lóðaskortur hefur myndast á Akureyri sem rekja má til vaxtarkipps í íbúaþróun sem var yfir landsmeðaltali á síðasta ári. Það er mikilvægt að skipuleggja framtíðar uppbyggingarsvæði í tíma og koma þannig í veg fyrir að lóðaskortur myndist. Framsókn vill því tryggja að á hverjum tíma séu ætíð til nægilega margar skipulagðar lóðir til að mæta þörfum íbúða- og atvinnuuppbyggingar.

Verslun og þjónusta er stór hluti atvinnulífs á Akureyri. Glerártorg styrkti stöðu Akureyrar sem miðstöð verslunar og þjónustu á Norðurlandi. Uppbyggingin hefur haldið áfram með tilkomu m.a. Norðurtorgs, Elko, Húsamiðjunnar og síðar á árinu með opnun Krónunnar. Framsókn vill stuðla að enn frekari uppbyggingu í bænum og vill á kjörtímabilinu sjá miðbæ Akureyrar eflast enn frekar með fjölbreyttri verslun, þjónustu og menningarstarfsemi.

Framsókn vill vera áfram leiðandi í uppbyggingu á atvinnulífi á Akureyri, við teljum að tækifærin séu fjölmörg til frekari vaxtar.

Höfundur skipar 4. sæti á lista Framsóknar á Akureyri í komandi bæjarstjórnarkosningum


Athugasemdir

Nýjast