KEA styrkir kaup á flygli í Þorgeirskirkju

KEA hefur afhent Þingeyskum sagnagarði styrk að fjárhæð 500.000 krónur sem renna til flygilkaupa fyrir Þorgeirskirkju. Flygillinn er af gerðinni Estonia og var kaupverð hans og fylgihluta um 2,2 milljónir króna.   

„Styrkveiting KEA skiptir okkur gríðarlega miklu máli því um leið og hún er fjárhagslegur stuðningur við verkefni okkar er hún bæði mikilsverð hvatning og viðurkenning á starfsemi Þingeysks sagnagarðs," segir Jóhann Guðni Reynisson, formaður ÞS, í tilefni af styrkveitingunni.

Þingeyskur sagngagarður er félag áhugaaðila um sagnaarfinn og miðlun hans í tengslum við menningartengda ferðaþjónustu sem til dæmis hefur birst í samstarfi við tónlistarhúsið Laugarborg um tónleikahald í Þorgeirskirkju.

Sagnagarðurinn stendur á þremur meginstoðum en þær eru Goðafoss og Þorgeirskirkja, einkum með hliðsjón af kristnitökunni árið 1000, og Þingey sem er forn þingstaður í Skjálfandafljóti.

Nú vinna Hornsteinar arkitektar að gerð deiliskipulags fyrir Sagnagarðinn og í framhaldi af því munu sýnileg merki, s.s. upplýsingaskilti og áningarstaðir, verða sett upp ferðamönnum jafnt sem heimamönnum til fróðleiks og ánægju. Einnig hefur Hið þingeyska fornleifafélag, m.a. í samstarfi við Sagnagarðinn, staðið fyrir fornleifarannsóknum í Þingey sem Fornleifastofnun hefur unnið.

„En flygillinn er kominn í Þorgeirskirkju, sem er mikið og gott tónlistarhús, öllum þeim sem þar njóta tónlistar til yndisauka," segir Jóhann og bætir við að aðstandendum Þingeysks sagnagarðs sé nú efst í huga þakklæti í garð KEA og allra annarra sem lagt hafa fjármuni í söfnun fyrir flyglinum. Nú sjái fyrir endann á henni, segir í fréttatilkynningu.

Nýjast