„Styrkveiting KEA skiptir okkur gríðarlega miklu máli því um leið og hún er fjárhagslegur stuðningur við verkefni okkar er hún bæði mikilsverð hvatning og viðurkenning á starfsemi Þingeysks sagnagarðs," segir Jóhann Guðni Reynisson, formaður ÞS, í tilefni af styrkveitingunni.
Þingeyskur sagngagarður er félag áhugaaðila um sagnaarfinn og miðlun hans í tengslum við menningartengda ferðaþjónustu sem til dæmis hefur birst í samstarfi við tónlistarhúsið Laugarborg um tónleikahald í Þorgeirskirkju.
Sagnagarðurinn stendur á þremur meginstoðum en þær eru Goðafoss og Þorgeirskirkja, einkum með hliðsjón af kristnitökunni árið 1000, og Þingey sem er forn þingstaður í Skjálfandafljóti.
Nú vinna Hornsteinar arkitektar að gerð deiliskipulags fyrir Sagnagarðinn og í framhaldi af því munu sýnileg merki, s.s. upplýsingaskilti og áningarstaðir, verða sett upp ferðamönnum jafnt sem heimamönnum til fróðleiks og ánægju. Einnig hefur Hið þingeyska fornleifafélag, m.a. í samstarfi við Sagnagarðinn, staðið fyrir fornleifarannsóknum í Þingey sem Fornleifastofnun hefur unnið.
„En flygillinn er kominn í Þorgeirskirkju, sem er mikið og gott tónlistarhús, öllum þeim sem þar njóta tónlistar til yndisauka," segir Jóhann og bætir við að aðstandendum Þingeysks sagnagarðs sé nú efst í huga þakklæti í garð KEA og allra annarra sem lagt hafa fjármuni í söfnun fyrir flyglinum. Nú sjái fyrir endann á henni, segir í fréttatilkynningu.