Kaupþing lokar starfsstöð sinni á Glerártorgi á Akureyri

Kaupþing hefur ákveðið að loka starfsstöð sinni á Glerártorgi á Akureyri frá og með þessari helgi.

Í starfsstöð bankans á Glerártorgi eru tveir starfsmenn en ekki kemur til uppsagna í tengslum við þessa breytingu, að sögn Sigurðar Harðarson útibússtjóra. Þótt afgreiðslunni verði lokað verður innkasthólf fyrir fyrirtæki áfram á staðnum, einnig hraðbanki og að sögn Sigurðar stendur til að bæta við öðrum hraðbanka í verslunarmiðstöðinni.

Kaupþing rekur umfangsmikla starfsemi við Geislagötu á Akureyri, þar sem starfa tæplega 40 manns við hin ýmsu störf. Á þessu ári verður hafist handa við að byggja nýtt húsnæði undir starfsemina, enda núverandi húsnæði við Geislagötu löngu orðið of lítið. Nýja húsnæðið verður á lóðinni þar sem Vélaver við Glerártorg stendur nú. Húsnæði Vélavers verður rifið og til stendur að byggja banka- og skrifstofuhúsnæði á fjórum hæðum á lóðinni, samtals ríflega 2000 fermetra byggingu.

Nýjast