Akureyrarliðin Þór og KA mættust á Akureyrarvelli í kvöld í 9. umferð 1. deildar karla á Íslandsmótinu í knattspyrnu. Eitt mark var skorað í leiknum og það gerðu KA- menn í viðbótartíma og hirtu öll stigin þrjú.
KA- menn voru mun frískari í byrjun leiks og voru meira með boltann. Þórsarar áttu hins vegar gott færi á 12. mínútu leiksins þegar Egill Jóhannsson skallaði boltann í slána. Þórsarar náðu að spila sig betur inn í leikinn eftir því sem á leið en KA- menn voru þó ávallt líklegri til að skora og áttu mun fleiri marktækifæri. Staðan markalaus í hálfleik.
Seinni hálfleikurinn fór af stað líkt og sá fyrri. KA- menn sóttu meira og voru miklu líklegri til að skora allan hálfleikinn en vantaði alltaf herlsumuninn upp á að klára færin. En það kom á 93. mínútu leiksins þegar Arnar Már Guðjónsson tryggði KA- mönnum sigur með góðum skalla eftir aukaspyrnu og þeir gulklæddu hirtu öll stigin þrjú.
Eftir leikinn eru KA- menn komnir í 4.sæti deildarinnar með 14 stig en Þórsarar sitja í 9. sæti með níu stig.