07. júní, 2008 - 17:10
Fréttir
Jónsteinn Aðalsteinsson leigubílstjóri á Akureyri var fyrstur hér á landi til að taka bílpróf eftir að hægri umferð var
tekin upp fyrir 40 árum. Það var þann 7. júní 1968 sem Jónsteinn þreytti prófið og eru liðin 40 ár í dag, laugardag.
Jónsteinn lærði á Toyota-Crown bifreið hjá Friðriki Kjartanssyni en hann hóf að læra á bíl þegar hægri umferð
tók gildi. Prófdómarinn, Svavar Jóhannsson, sagði í viðtali við Morgunblaðið þann 8. júní 1968 að Jónsteinn hafi
staðist prófið með miklum sóma. Jónsteinn man eftir deginum eins og hann hafi gerst í gær. "Já það má eiginlega orða
það þannig, það var heilmikið bras í kringum þetta og að fá þetta í gegn, ráðuneytið að mig minnir vildu ekki
alveg keyra hægri umferðina inn strax en það fór í gegn þann 7. júní," segir Jónsteinn. Hann þreytti fyrst munnlegt próf
nokkrum dögum áður en bílprófið sjálft fór fram. Jónsteinn keyrir ennþá á fullu og er atvinnubílstjóri
í dag. "Það er alltaf svolítið gaman af þessu."