Jafntefli á Fjölnisvelli

Þórs/KA stelpur sóttu Fjölni heim í Landsbankadeild kvenna um helgina í miklum markaleik á Fjölnisvellinum. Lokatölur leiksins urðu 3-3. Norðanstelpur byrjuðu leikinn betur og höfðu 2-0 yfir í hálfleik með tveimur mörkum frá Bojönu Besic. Snemma í síðari hálfleiknum náði Kristín R. Hextall að minnka muninn fyrir heimamenn.

En markamaskínan Rakel Hönnudóttir kom norðanstelpum í 3-1 á 60. mínútu leiksins og allt leit út fyrir góðan sigur Þórs/KA stúlkna. En heimastúlkur í Fjölni neituðu að gefast upp. Á síðustu tíu mínútum leiksins náðu þær að jafna metin með mörkum frá Rúnu Sif Stefánsdóttur og Birnu Sif Kristinsdóttur. Niðurstaðan því 3-3 jafntefli.

Gríðarlega svekkjandi úrslit fyrir norðanstelpur í ljósi þess hvernig leikurinn þróaðist en eitt stig er vissulega skárra en ekkert. Þórs/KA stelpur sitja í fimmta sæti deildarinnar með 7 stig og mæta Fylki á Akureyrarvelli í kvöld kl. 19:15.

Nýjast