Jafnræði var með liðunum í upphafi leiks og skiptust liðin á að sækja. Það dró til tíðinda strax á 16. mínútu leiksins en þá átti Gunnar Kristjánsson leikmaður Víkings skot að marki heimamanna sem fór í samherja og yfir Matus Sandor í marki KA- manna. Heldur betur skrautlegt mark og gestirnir komnir marki yfir. Heimamenn náðu að jafna metin á 22. mínútu og þar var að verki ungverski nýliðinn Gyula Horvarth þegar hann tók boltann á lofti eftir skalla frá Elmari Dan Sigþórssyni inn í teig og þrumaði boltanum í netið. Staðan í hálfleik 1-1.
Seinni hálfleikurinn byrjaði rólega en bæði lið fengu þó sín færi til að klára leikinn. Víkingar áttu skot í slánna á 55. mínútu og mínútu síðar átti Dean Martin skalla framhjá marki gestanna úr algjöru dauðafæri, einn og óvaldaður í teignum. KA- menn sóttu meira þegar líða tók á leikinn en gestirnir beittu hættulegum skyndisóknum. Heimamenn reyndu hvað þeir gátu til að tryggja sér öll þrjú stigin en allt kom fyrir ekki og lokatölur á Akureyrarvelli, 1-1.
Eftir leikinn situr KA í sjötta sæti deildarinnar með 16 stig.