Þegar Guðmundur keypti húsið á sínum tíma var deiliskipulagið þannig útlítandi að mikil verönd var í bakgarði hússins og gott rými milli næstu bygginga.
"Maður sá það fyrir sér þegar maður keypti á sínum tíma að á góðum degi myndum við hérna í Hólatúni og fólkið hérna í blokkinni á móti nota þessa lóð til þess að skemmta okkur, eða að sett yrðu niður tré og þetta haft huggulegt. Þá væri þetta svona einskonar paradís þarna á milli," segir Guðmundur.
Í nýja skipulaginu sem kynnt var í febrúar á þessu ári og samþykkt þann 19. maí sl., eru hins vegar miklar breytingar sem eru Guðmundi ekki að skapi. Þar er byggingin, sem var í gamla deiliskipulaginu í ágætis fjarlægð frá Hólatúni, komin mun nær húsi Guðmundar en var í fyrra skipulaginu og er hann hræddur um að það muni verða til þess að það verði hreinlega grafið undan garði sínum, sem hann hefur lagt bæði mikla fjármuni og vinnu í.
"Maður er búinn eyða miklu í að gera garðinn eins og maður vill hafa hann, því maður reiknaði auðvitað með að þetta skipulag sem fyrir var myndi standa, svo er öllu breytt og þá er maður hálf réttindalaus." Í byggingunni sem mun rísa í bakgarði Guðmundar er áætlað að setja niður "klukkubúð" sem væntanlega verður opin allan sólarhringinn. Auk þess á að leggja göngubraut upp við garð Guðmundar, þannig að reikna má með að friðurinn sem fylgdi því að búa á þessu svæði sé farinn fyrir lítið.
"Þarna mun koma til með að verða mikill erill, beint fyrir framan svefnherbergisgluggann hjá manni." Þá finnst Guðmundi að ekki sé tekið tillit til íbúa þegar svona miklar breytingar eru gerðar. "Manni finnst algjörlega brotið á íbúðarrétti manns í þessu máli, það er eins og maður geti engu treyst hvað þetta varðar og hafi ekkert um það segja," segir Guðmundur.