ÍBA vill að nokkur íþróttafélög fái að ráða sér starfsmann

Þröstur Guðjónsson formaður Íþróttabandalags Akureyrar, ÍBA, hefur sent íþróttaráði erindi, þar sem fram kemur að brýnt sé nokkur íþróttafélög í bænum geti ráðið sér starfsmann hið fyrsta í a.m.k. hálft starf. ÍBA leggur til að teknar verði upp viðræður við eftirtalin félög, Fimleikafélag Akureyrar, Sundfélagið Óðinn, Siglingaklúbbinn Nökkva, Ungmennafélag Akureyrar, Skíðafélag Akureyrar og Hestamannafélagið Létti. Í bókun íþróttaráðs kemur fram að ráðið hafi ekki fjármagn til að auka við núgildandi rekstrarsamninga aðildarfélaga ÍBA en mun ræða málið við stjórn ÍBA í sambandi við sameiginlega stefnumótunarvinnu sem nú er hafin.

Formaður ÍBA sendi einnig inn erindi til íþróttaráðs, þar sem óskað er eftir því að teknar verði upp viðræður við Fimleikafélag Akureyrar vegna gildandi rekstrarsamnings félagsins við Akureyrarbæ. Í bókun íþróttaráðs segir að ráðið harmi erfiðan rekstur Fimleikafélagsins en getur ekki að svo stöddu komið að frekari rekstri félagsins umfram gildandi resktrarsamning. Ráðið felur formanni og deildarstjóra að skoða málið frekar með það að markmiði að finna lausn á því að tryggja rekstur Fimleikafélagsins.

Nýjast