Hjalti Jón bæjarfulltrúi vill efla löggæslu á Akureyri

"Bæjarstjórn má ekki þegja þunnu hljóði yfir þessu.  Við eigum að senda skýr skilaboð um að við séum óánægð með ástandið," segir Hjalti Jón Sveinsson bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Akureyrar og skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri.   

Hann vakti máls á löggæslumálum á fundi bæjarráðs nýverið, en hann hefur að sögn lengi verið talsmaður þess að efla löggæslu í bænum.  Að mati Hjalta Jóns hefur lögreglan ekki nægilegt bolmagn til að sinna löggæslu í bænum sem skyldi.  Liðið sé gott og fagmennska ríkjandi innan lögreglunnar en mannekla hái starfseminni.  Lögreglumenn séu svo til jafnmargir nú og þeir voru fyrir þrjátíu árum.  "Það er of lítill kraftur til að sinna ýmsum málaflokkum og af því hef ég verulegar áhyggjur og veit að fleiri deila þeim með mér," segir hann. 

Hjalti Jón nefnir að fyrir skömmu hafi brotist úr fjöldaslagsmál í bænum og lögregla kölluð til að skakka leikinn.  Haft hafi verið eftir aðstoðaryfirlögregluþjóni að um hafi verið að ræða átök milli tveggja hópa innan fíkniefnaheimsins. Þegar lögregla hafi náð tökum á slagsmálum hafi aðilar einfaldlega farið af stað á ný og selt sín fíkniefni, án þess að neitt væri hægt að gera.  "Vímuefni eru seld hér í bæ í stórum stíl án þess að lögreglan fái rönd við reist.  Hún er of fáliðuð til að fást við þennan málaflokk, getur ekki fylgt málum eftir sökum manneklu," segir Hjalti Jón.

Hann nefnir einnig að til staðar sé í bænum ágætur þjálfaður fíkniefnahundur, en þannig hátti til að hann fylgi umsjónarmanni sínum og er því bara á "vakt" þegar viðkomandi lögreglumaður sé á vaktinni.  Hann sé því ekki nægilega virkur og það sé afar slæmt.  Þetta segir Hjalti Jón að fíkniefnasalar nýti sér, þeir kynni sér vinnubrögð lögreglunnar og hagi sér í samræmi við þau að þessu leyti.  "Hundurinn þarf stöðuga þjálfun, hann verður að vera tiltækur hvenær sem er, hann þarf fleiri verkefni til að halda sér í formi."

Hjalti Jón segir lögreglu vita mæta vel hvað sé á seyði í bænum þegar að fíkniefnamálum komi en hafi ekki slagkraft til að fylgja málum eftir. Hún geti ekki tekið af krafti á málum og það sé afar slæmt.  Þá segir hann sýnileika lögreglu ekki nægilegan og telur að margt ungt fólk komist upp með hraðakstur á götum bæjarins.  Það hafi yfir að ráða öflugum bílaflota og nýti sér kraftinn í miklum mæli.  Af því hafi hann verulegar áhyggjur.

Nýjast