Góður sigur hjá Þórs/KA stúlkum

Þór/KA vann góðan sigur á liði Breiðabliks í fjórðu umferð Landsbankadeildar kvenna í kvöld er liðin mættust á Akureyrarvelli. Lokatölur urðu 2-1 sigur Þórs/KA.

Leikurinn byrjaði ekki vel fyrir heimamenn en Blikastúlkur höfðu yfirhöndina í byrjun leiks og komust yfir strax á 5. mínútu leiksins með marki frá Berglindi Þorvaldsdóttur. Heimamenn náðu að spila sig hægt og rólega inn í leikinn og Breiðabliksstúlkur misstu mann af velli rétt fyrir lok fyrri hálfleiks þegar Harpa Þorsteinsdóttir fékk að líta rauða spjaldið og Þórs/KA stelpur því einum manni fleiri það sem eftir lifði leiks. Staðan í hálfleik 1-0 Breiðablik í vil.

Rakel Hönnudóttir náði að jafna metin fyrir Þór/KA á 48. mínútu þegar hún náði að pota í boltann eftir að markvörður Breiðabliks hafði misst boltann úr greipum sér. Það var svo á 55. mínútu að brotið var á Ivönu Ivanovic innan teigs og vítaspyrna dæmd. Ivana fór sjálf á vítapunktinn og skoraði af öryggi og tryggði heimamönnum sætan sigur.

Nýjast