09. júní, 2008 - 15:44
Fréttir
Umsóknarfrestur um nám við Háskólann á Akureyri rann út þann 5. júní sl. og hafa alls borist rúmlega 900 umsóknir
frá nýnemum sem er met í sögu skólans.
Þetta er gífurleg aukning frá fyrri árum og til samanburðar má nefna að árið 2007 sóttu 730 nýnemar um nám við
skólann. Flestir nýnemar hafa sótt um nám við Viðskipta- og raunvísindadeild eða 318 manns. Um nám í Heilbrigðisdeild sækja 119
manns og þá sækja 310 um nám í Kennaradeild og 157 um nám í Félagsvísinda- og lagadeild en þessar tvær deildir verða
sameinaðar í haust undir nafninu Hug- og félagsvísindadeild.
„Þessi mikli áhugi á námi við Háskólann á Akureyri er mjög ánægjulegur. Gæði náms við
Háskólann á Akureyri eru alþjóðlega viðurkennd og nemendur leita að námi sem þeir geta byggt framtíð sína á" segir
Þorsteinn Gunnarsson, rektor skólans í fréttatilkynningu.
Enn á eftir að fjalla um umsóknir svo ekki er vitað hversu margir fá skólavist. Inn í þessum tölum eru bæði þeir sem
sækja um grunnnám og þeir sem sækja um meistaranám. Að svo stöddu er ekki hægt að veita upplýsingar um hvort fyrir sig.