Alls voru skóflurnar 10 og Sigurjón P. Stefánsson æskuvinur Heiðars og einn þeirra sem tók skóflustungu í dag sagði að ein skófla væri eftir í keðjunni en það væri tíunda skófla enda væri tíu táknræn tala fyrir Heidda. "Skóflan er ekki skipuð sjáanlegum manni en það er alveg klárt að hann mun vera með okkur í anda og taka vel á henni." Safnið verður staðsett á safnasvæðinu sunnan við Iðnaðarsafnið á Krókeyri og verður alls um 800 fermetrar að stærð. Fjölskylda og vinir Heiðars hafa stofnað sjálfseignarstofunun um byggingu og rekstur safnsins.
Heiðar var einn allra mesti mótorhjólamaður landsins, sjálfur átti hann 22 mótorhjól þegar hann lést og munu þau verða til sýnis á safninu. Jóhann Freyr Jónsson safnstjóri segir að safnið hafi einnig fengið mótorhjól að gjöf og á nú orðið um 50 hjól. Hann sagði að safnið yrði einnig heimildsgeymsla um sögu mótorhjóla á Íslandi.
Jóhann Freyr sagði að safnið yrði byggt í áföngum og að stefnt væri að því að framkvæmdum við 1. áfanga verði lokið næsta sumar. "Það er erfitt að segja til um að framhaldið en það ræðst af því hvernig gengur að safna peningum," sagði Jóhann Freyr. Mótorhjólasafnið verður skemmtileg viðbót við safnaflóruna í Eyjafirði og víst er margir bíða spenntir eftir að það opni.
Í tengslum við skóflustunguna að nýja mótorhjólasafninu verða Hjóladagar á Akureyri, sem hófust í gær föstudag. Þessa stundina er í gangi dagskrá á ÚA-planinu og ýmislegt skemmtilegt í boði. Í kvöld verður svo hátíðarkvöldverður í Sjallanum og ball með Sniglabandinu á eftir.