Félag byggingamanna í Eyjafirði sameinast Trésmíðafélagi Reykjavíkur

Félag byggingamanna í Eyjafirði hefur sameinast Trésmíðafélagi Reykjavíkur.  Sameiningin var samþykkt á aðalfundi félagsins á dögunum.  Nýtt sameinað félag hefur ekki fengið endanlegt nafn en gengur undir nafninu Tr-Bygg.  Um 400 manns voru í félaginu fyrir norðan, 1700 syðra. Heimir Kristinsson formaður segir sameininguna eiga sér nokkurn aðdraganda, menn hafi verið að spjalla saman í rúmt ár, "það er ekki einfalt að sameinast félagi í Reykjavík, en tryggt er  að þjónustan við félagsmenn mun aukast hér fyrir norðan, ekki dragast suður til Reykjavíkur," segir Heimir.  Skrifstofa félagsins verður áfram í Alþýðuhúsinu við Skipagötu.

Félagsmenn höfðu misjafnar skoðanir á sameiningunni í fyrstu segir Heimir, með og á móti en á aðalfundi var góður meirihluti fyrir sameiningu.  Heimir nefnir að viðræður hafi farið fram á sínum tíma um sameiningu verkalýðsfélaga á Eyfjarðarsvæðinu, en menn ekki náð saman og hugmyndir í þá veru verið slegnar út af borðinu.  "Þær hugmyndir náðu ekki fram að ganga þannig að þá fóru menn að horfa í aðrar áttir," segir hann og nefnir að félögin sem sameinuðust nú ættu margt sameininglegt, sami kjarasamningur væri í gildi hjá félagsmönnum og ýmis hagsmunamál önnur sambærileg.  Hann segir Félag byggingamanna  ekki hafa verið nauðbeygt til að fara í sameiningu, en samlegðaráhrif yrðu allnokkur, ávinningur yrði fyrir bæði félög í kjölfarið.  Þannig nefndi hann að samþykkt hefði verið að lækka félagsgjöld um helming frá því sem áður var en auka jafnframt þjónustuna.

Björn Snæbjörnsson formaður Einingar-Iðju segir að hvert og eitt félag verði að meta hvernig hagsmunum þess og félagsmanna verði best borgið.  "Hvert og eitt félag verður að meta það fyrir sig, allir keppast að því að veita sem besta þjónustu og verða að velja leiðina að því markmiði," segir hann.  Stór félög séu vissulega öflugri en þau smáu, að því þurfi menn að huga.

Nýjast