Enn fjölgar starfsfólki hjá Saga Capital Fjárfestingarbanka

Þrír nýir starfsmenn hafa komið til starfa hjá Saga Capital Fjárfestingarbanka, Jón Óttar Birgisson, Unndór Jónsson og Vilhjálmur Bergs. Starfsmenn bankans eru þar með orðnir samtals 35 á Akureyri og í Reykjavík.  

Jón Óttar hefur verið ráðin til starfa sem framkvæmdastjóri Viðskiptaþróunar. Hann er með B.S. gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands. Undanfarin átta ár hefur hann starfað hjá fyrirtækinu Strax sem framleiðir og dreifir aukahlutum fyrir farsíma. Jón Óttar var framkvæmdastjóri Strax í Hong Kong og framkvæmdastjóri í Bretlandi og síðast framkvæmdastjóri Strax Innovation, með aðsetur í Bretlandi. Þar áður starfaði hann m.a. í verðbréfamiðlun hjá Íslenskum verðbréfum. Jón Óttar er giftur Hrafnhildi Georgsdóttur og eiga þau tvö börn.

Unndór er nýr starfsmaður í Fyrirtækjaráðgjöf Saga Capital og mun sinna ráðgjöf um kaup og sölu fyrirtækja, vöktun kaup- og sölutækifæra, hafa umsjón með samningaviðræðum og samningagerð ofl. Unndór er með B.S. gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands og B.A. í fjölmiðlafræði frá University of Alabama ásamt því að hafa lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. Unndór var síðast framkvæmdarstjóri Norðanflugs ehf. og vann þar áður í flugrekstrardeild Flugfélagsins Atlanta. Unndór er í sambúð með Öldu Hlín Karlsdóttur.

Vilhjálmur hefur verið ráðinn til starfa á Lögfræðisviði Saga Capital þar sem hann sinnir lögfræðilegri ráðgjöf og þjónustu við yfirstjórn, sem og við tekju- og stoðsvið bankans. Vilhjálmur er með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands og héraðsdómslögmannsréttindi. Hann hefur rekið eigin lögmannsstofu undanfarin fjögur ár en þar áður var hann fulltrúi á lögmannsstofu Andra Árnasonar hrl. Vilhjálmur er giftur Jónu Valborgu Árnadóttur og eiga þau tvo syni.

Nýjast