Þór lagði leið sína í Hafnarfjörðinn um helgina þegar þeir heimsóttu Hauka þegar 10. umferð 1. deildar karla á Íslandsmótinu í knattspyrnu fór fram. Þetta var því miður enginn frægðarför fyrir Þórsara, eitt mark var skorað í leiknum og það gerðu heimamenn og þriðji tapleikur Þórs í deildinni í röð staðreynd.
Leikurinn fór rólega af stað og var fyrri hálfleikurinn frekar bragðdaufur. Fyrsta og eina alvöru færið í fyrri hálfleik kom á 35. mínútu og það fengu Haukar þegar Hilmar Trausti Arnarsson var einn og óvaldaður á markteigslínunni en skaut yfir markið úr algjöru dauðafæri. Staðan markalaus í hálfleik. Seinni hálfleikurinn fór rólega af stað líkt og sá fyrri. Fyrsta færið í hálfleiknum kom á 63. mínútu og úr því skoraði Hilmar Geir Eiðsson fyrir heimamenn eftir að hafa fengið stungusendingu inn fyrir vörn Þórs og lagði boltann í nærhornið framhjá Árna Skaftasyni í marki gestanna og kom Haukum yfir. Heimamenn voru nálægt því að bæta við öðru marki á 81. mínútu þegar þeir fengu dæmda aukaspyrnu á góðum stað. Denis Curic tók spyrnuna en skot hans fór rétt yfir markið. Heimamenn áttu svo aftur gott færi undir lok leiksins þegar Hilmar Rafn Emilsson slapp einn í gegnum vörn gestanna og vippaði boltanum yfir Árna Skaftason í marki Þórs en boltinn fór í þverslána og yfir. Lokatölur á Ásvöllum 1-0 sigur Haukamanna.
Páll Viðar Gíslason aðstoðarþjálfari Þórs var ánægður með baráttu sinna manna í leiknum en segir að nú verði að fara að snúa við blaðinu og taka stig. “Þetta snýst um að safna stigum og það verðum við að fara að gera, þó að baráttan og viljinn sé góður í liðinu þá erum við ekki að fá neitt út úr þessum leikjum en núna verðum við að fara að snúa við blaðinu og hirða stig,” segir Páll Viðar. Eftir tíu umferðir situr Þór í níunda sæti deildarinnar með níu stig.