Í ljósi aukinnar umferðar taldi ráðið nauðsynlegt að farið verði yfir hljóðmælingar í bæjarfélaginu og kortlagt hvar úrbóta er þörf. Að sögn Helga Más Pálssonar deildarstjóra framkvæmdadeildar bæjarins er fyrirliggjandi hljóðkort af bænum sem byggir á mælingum sem eru um fimm ára gamlar. Á þessum mælingum og kortlagningunni á grundvelli þeirra hafa verið gerðar spár og áætlanir um hljóðstig sem ljóst sé að þurfi að endurskoða.
Ákveðin svæði hafa verið sérstaklega í sigtinu þar sem líklegt þykir að gera þurfi ráðstafanir vegna skipulagsins. Má þar nefna staði eins og Miðhúsabraut og einnig er ljóst að við a.m.k. eitt raðhús sem liggur með Austursíðu þarf að setja hljóðmön vegna aukinnar umferðar, ef Hagkaupsverslun verður sett niður í götunni. Helgi Már segir að bærinn muni smá saman endurnýja hljóðkortið af bænum og færa það nær því sem veruleikinn er í dag.