Ekki allir dómarar heilir

"Hérna á Norðurlandi eru þeir ( dómararnir ) ekki allir heilir og það er bara orðið þannig hér á Norðurlandi". Þessi orð mælti Jónas Hallgrímsson þjálfari 2. deildar liðs karla hjá Völsungi í viðtali við vefsíðuna fotbolti.net sem birtist í gærkvöldi þar sem hann var ansi harðorður út í dómgæsluna hér á Norðurlandi og finnst dómarar leggja Völsung í einelti.

 Jónas hefur sagt upp störfum sem þjálfari hjá liðinu og segir ástæðuna vera hrikalega dómgæslu í garð síns félags og segist ekki vilja taka þátt í þessu leikriti KSÍ lengur. Jóhannes Valgeirsson úr stjórnarráði dómara hér á Norðurlandi vildi ekkert tjá sig um málið og vísaði því algjörlega til KSÍ. Nú í hádeginu birtist afsökunarbeiðni út af viðtalinu frá Völsungi, sem er svohljóðandi:

 Yfirlýsing frá knattspyrnuráði Völsungs, miðvikudaginn 9. júlí 2008:

Stjórn knattspyrnudeildar Völsungs biður hlutaðeigandi aðila, KSÍ, knattspyrnudómara, leikmenn, forráðamenn og stuðningsmenn knattspyrnuliða á Íslandi afsökunar vegna þeirra ummæla sem höfð voru eftir þjálfara Völsungs Jónasi Hallgrímssyni í viðtali á fotbolti.net í gær. Umrætt viðtal er ekki með vitund, vilja né á ábyrgð knattspyrnudeildar Völsungs.  Knattspyrnuráð Völsungs. Guðbjartur Ellert Jónsson Hjálmar Bogi Hafliðason Ingólfur Freysson Olgeir Sigurðsson Júlíus Bessason 

Nýjast