Gestum var boðið að þiggja veitingar og skoða uppbygginguna sem átt hefur sér stað, eftir að aur- og snjóskriður féllu á bæinn fyrir einu og hálfu ári. Fjölmargir ættingar og vinir hafa komið að hreinsun og uppbyggingu á bænum og vildu þau María og Óskar þakka fyrir sig með þessum hætti. Þau voru að vonum ánægð með hversu margir komu í heimsókn á laugardag. Mikil mildi þykir að ekki urðu slys á fólki í hamförunum þann 20. desember 2006 en miklar skemmdir urðu á húseignum í Grænuhlíð. Skriður féllu á íbúðarhús og gamalt fjós og drápust um 20 gripir. Að minnsta kosti tvær skriður féllu á bæinn, önnur sprengdi upp hurð og barst mikill aur inn í eldhús og olli miklum skemmdum.
"Ef við hefðum verið komin í fjósið hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum," sagði María í samtali við Vikudag daginn eftir að skriðurnar féllu á bæinn. "Við fórum í fjósið upp úr klukkan hálf sjö en bóndanum datt í hug að keyra suður af heimreiðinni á traktornum en þá kom önnur skriða. Við flýttum okkur þá heim að bæ til að ná í strákinn og náðum svo að forða okkur við illan leik. Þarna höfðu komið fleiri skriður beggja vegna bæjarins og þótt við værum á öflugum traktor áttum við fullt í fangi með að komast í burtu," sagði María ennfremur í umræddri frétt þann 21. desember 2006.
Aurskriður féllu víðar í firðinum á þessum tíma, miklar vegaskemmdir urðu í Eyjafjarðarsveit, ær drukknuðu og mikið tjón varð hjá Fallorku. Maður og hundur björguðust giftursamlega er bíll mannsins hafnaði í Djúpadalsá. Þá varð milljóna tjón á götum og húsum á Akureyri þegar vatn flæddi þar um allt, vegna mikilla flóða í kjölfar rigninga og hlýinda. Einnig var mikið hvassvirði þar sem allt lauslegt fauk til og tré rifnuðu upp með rótum.