10. júlí, 2008 - 14:19
Fréttir
"Þetta er í fyrsta sinn sem ég kem hingað til Akureyrar og finnst það alveg dásamlegt þó það sé nokkuð
þungskýjað," segir organistinn Bine Katrine Bryndorf sem á sunnudaginn mun halda tónleika í Akureyrarkirkju og spila þar blandaða dagskrá
eldri og nýrri orgelverka á sumartónleikum. Hún segir hljóðfærið í Akureyrarkirkju afskaplega gott og merkilega fjöhæft.
Bine Bryndorf, er einn af virtustu orgelleikurum Dana, byrjaði mjög ung að læra á orgel. Hún er núna prófessor við Konunglega
tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn og organisti við Vartov kirkju í miðborg Kaupmannahafnar. Þess má geta að hún á
íslenskan afa, en faðir móður hennar kemur frá Reykjavík. "Mamma skilur dálítið í íslensku en er vita æfingalaus í
að tala málið! Hún kenndi mér því miður ekki íslenskuna þannig að ég er alveg mállaus á tungumáli afa
míns," segir Bine Brydorf við Vikudag. Hún hefur unnið til margra verðlauna í orgelkeppnum og veturinn 1999-2000 var hún útnefnd
tónlistarmaður ársins af Rás 2 danska útvarpsins. Hún er mjög virk sem einleikari auk þess sem hún hefur kennt á
meistarakúrsum víða um Evrópu og í Bandaríkjunum. Þá er hún einnig eftirsótt sem dómari í orgelkeppnum. Í fyrra
hlaut hún dönsku tónlistarverðlaunin fyrir besta klassísku geislaplötuna fyrir hljóðritun sína á verkum Buxtehude.
Á efnisskránni á sunnudag er Toccata í F-dúr eftir Johann Sebastian Bach, tveir kaflar úr L'Ascension eftir Olivier Messiaen og Commotio eftir Carl
Nielsen.
Tónleikarnir hefjast kl 17:00 standa í klukkustund án hlés, aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir.