Eins og fram kom í Vikudegi í gær verður eftirlitsmyndavélakerfi sett upp í miðbæ Akureyrar en útboð í verkið stendur yfir þessa dagana. Ólafur Ásgeirsson aðstoðaryfirlögregluþjónn á Akureyri segir þetta mjög gott framtak. "Við erum ánægðir með fá þetta, þetta mun ekki bara hjálpa okkur heldur allri almennri umgengni um bæinn, þegar fólk veit að það er eftirlitsmyndavélakerfi þá hugsar það sig kannski tvisvar um," segir Ólafur. Hann segir kerfið hafi reynst vel í miðbæ Reykjavíkur og það geti auðveldað lögreglunni hér í bænum að uppljóstra líkamsárásir sem og aðra glæpi með tilkomu myndavélanna.
Ólafur segir að myndavélarnar verði nokkuð sýnilegar og verður sett upp skilti til þess að vara við þeim. Þá segir hann ennfremur að það sé ósk lögreglunnar að myndavélarnar verði komnar upp fyrir verslunarmannahelgina.